Öll viljum við búa á eigin heimili eins lengi og hægt er.

Þegar sú þjónusta sem er í boði dugir ekki til og aðstæður eru þannig að fólk sér ekki fram á að geta búið heima, er hægt að sækja um pláss á hjúkrunarheimili.

Hjúkrunarheimilin sjálf taka ekki við umsóknum, heldur fer allt ferlið fram í gegnum svokallaðar færni- og heilsumatsnefndir.

Kostnaður íbúa við dvöl á Sóltúni og Sólvangi er sá sami og 
á öðrum hjúkrunarheimilum.

Umsóknarferlið

Færni- og heilsumatsnefndin metur bæði félagslegar aðstæður og líkamlega og andlega heilsu umsækjanda.

Hún aflar gagna frá fagfólki í félags- og heilbrigðisþjónustu sem þekkir til umsækjandans og kemst svo að niðurstöðu um hvort þörf sé á búsetu á hjúkrunarheimili til lengri tíma.

  1. Umsókn send

    Þú fyllir út umsókn um færni– og heilsumat og sendir í bréfpósti á nefndina.

  2. Mat fer fram

    Færni– og heilsumatsnefndin aflar gagna, metur þau og kemst að niðurstöðu. Miðað er við að niðurstaða liggi fyrir innan 4 vikna frá umsókn.

  3. Umsókn samþykkt

    Ef umsóknin er samþykkt berst umsækjanda formleg niðurstaða ásamt upplýsingum um hjúkrunarheimili og umsóknareyðublaði. Þú fyllir það út og sendir á nefndina.

  4. Bið eftir plássi

    Núna er nafn þitt á biðlista eftir hjúkrunarrými. Boð um pláss fer eftir niðurstöðu matsins og stöðunni hjá þeim hjúkrunar-heimilum sem voru á umsóknareyðublaðinu. Samþykkt mat gildir í 12 mánuði.

  5. Umsækjanda býðst pláss

    Nú losnar pláss og þá færðu sent formlegt boð.

Athugaðu að umsókn getur runnið út

Ef meira en 12 mánuðir líða án þess að pláss bjóðist þarf að endurnýja matið.

Frekari upplýsingar fyrir íbúa

Hér getur þú séð frekari upplýsingar fyrir núverandi og verðandi íbúa hjúkrunarheimila Sóltúns.

Þjónusta við íbúa

Við leggjum áherslu á stuðning og samvinnu við aðstandendur. Kynntu þér helstu þjónustu sem íbúar fá hér.

SkoðaOpnast í nýjum glugga

Að flytja og aðlagast

Það er margt sem þarf að huga að við flutning á hjúkrunarheimili. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar sem gott er að hafa við höndina við flutninga og aðlögun.

SkoðaOpnast í nýjum glugga

Spurt og svarað

Stefnan er almennt sú að fólk geti búið að eigin heimili eins lengi og hægt er, með réttum stuðningi úr heilbrigðis- og velferðarkerfinu.

Þegar ljóst er að slíkt er fullreynt, og eina úrræðið er lengri tíma dvöl á hjúkrunarheimili, þá er rétt að sækja um færni- og heilsumat.

Það flýtir ekki boði um pláss að sækja fyrr um matið, enda fara boð um pláss ekki eftir því hvenær var sótt um heldur hver er í mestri þörf hverju sinni.

Það geta verið krefjandi aðstæður fyrir aðstandendur að bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili. Við mælum með að skoða eftirfarandi:

1. Aukna heimahjúkrun og heimastuðning hjá sveitarfélögum, heilsugæslu eða hjá Sóltún heima.


2. Hvíldar- eða endurhæfingarinnlögn á hjúkrunarheimili, frá nokkrum dögum upp í allt að 8 vikur. Færni- og heilsumatsnefndir afgreiða umsóknir um hvíldarinnlögn innan 7 daga.

Sóltún og Sólvangur bjóða því miður ekki upp á hvíldarinnlögn en mörg önnur hjúkrunarheimili eru með slíkt í boði.

Sóltún og Sólvangur hafa ekki stjórn á biðlistum fyrir hjúkrunarrými og hafa því miður ekki upplýsingar um stöðu umsækjenda á biðlistum.

Færni- og heilsumatsnefndir raða umsækjendum á biðlista og endurmeta röðina stöðugt eftir aðstæðum hvers og eins og eftir þeim plássum sem losna á hjúkrunarheimilum.

Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að hafa samband við nefndina í síma 513 5000 milli kl. 11-12 alla virka daga til að kanna stöðuna.

Ef meira en 12 mánuðir líða án þess að pláss bjóðist þarf að endurnýja matið með því að senda inn nýja umsókn til færni- og heilsumatsnefndar. Þá er aftur kallað eftir gögnum og ef aðstæður hafa versnað er tekið tillit til þess í nýju mati.

Kostnaður íbúa við dvöl á Sóltúni og Sólvangi er sá sami og á öðrum heimilum.

Lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun til íbúa falla niður eftir að íbúi flytur inn á hjúkrunarheimili. Eftir það fær íbúi greitt ráðstöfunarfé eða tekur þátt í dvalarkostnaði. Fyrirkomulagið fer eftir tekjum sem íbúi fær, t.d. frá lífeyrissjóði.

TryggingastofnunOpnast í nýjum glugga veitir nánari upplýsingar um dvalarkostnað vegna hjúkrunarrýma.