Sólvangur hjúkrunarheimili

Sóltún Heima tekur við rekstri á hjúkrunarheimilinu Sólvangi á árinu 2019 í kjölfar útboðs Ríkiskaupa

,,Við hjá Sóltúni Heima erum full tilhlökkunar að taka við rekstri Sólvangs í Hafnarfirði á næsta ári þegar nýja húsnæðið sem er í byggingu verður tekið í gagnið”, segir Halla Thoroddsen framkvæmdastjóri Sóltúns Heima.

Rekstur Sólvangs var boðinn út í sumar af hálfu Ríkiskaupa fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands og niðurstaða útboðsins var sú að Sóltún heimahjúkrun og heimaþjónusta ehf varð fyrir  valinu. Greiðslur verða samkvæmt  rammasamningi um hjúkr­un­ar- og dvalarrými við Sjúkratryggingar Íslands.

,,Við teljum hér vera spennandi tækifæri á Sólvangi og hlökkum til að bjóða upp á hjúkrunarþjónustu sem byggir á hugmyndafræði sem hefur gefið mjög góða raun  á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík, en það hefur verið rekið við góðan orðstír til margra ára.   Hugmyndafræði Sóltúns hefur umhyggju fyrir einstaklingnum í fyrirrúmi, þar sem sjálfræði hans er virt í allri umönnun. Heimilisandi og virðing fyrir einkalífi hvers íbúa er ráðandi um leið og öryggiskennd sem hlýst af sambýli og sólarhringshjúkrunarþjónustu er náð. Athafnir daglegs lífs eru viðfangsefnið með áherslu á þátttöku íbúa og aðstandenda þeirra eftir getu, óskum og vilja hvers og eins,” segir Halla.

,,Unnið verður með hugmyndafræði Sóltúns en það verður munur á milli þjónustustigs Sólvangs og Sóltúns hjúkrunarheimilis þar sem íbúar á Sóltúni þarfnast almennt meiri hjúkrunar en íbúar á Sólvangi.  Hins vegar munu íbúar hafa aðgang að fjölbreyttri þjónustu sem léttir daglegt líf“.

Framkvæmdastjóri Sólvangs verður Halla Thoroddsen og Ingibjörg Eyþórsdóttir hjúkrunarfræðingur verður framkvæmdastjóri hjúkrunar.  Sóltún Heima mun einnig leggja áherslu á gott starfsumhverfi á Sólvangi fyrir starfsfólk og að heimilið verði eftirsóknarverður vinnustaður.  Sóltún Heima er hluti af Sóltúnsfjölskyldunni sem rekur Sóltún hjúkrunarheimilið,  Sóltún öryggis- og þjónustuíbúðir fyrir 60 ára og eldri og Sólstöður starfsmannaleigu.

Sóltún Heima hefur frá árinu 2017 boðið upp á persónulega heimaþjónustu, heimahjúkrun og heilsueflingu fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu sem miðar að því að efla, styrkja og styðja aldraða í sjálfstæðri búsetu.  Félagið getur boðið upp á samfellu í þjónustu við aldraða frá því að veikindi gera vart við sig og létt undir með fjölskyldum á heimili þeirra á meðan beðið er eftir hjúkrunarrými.

Nánari upplýsingar í síma 563 1400 eða á soltunheima@soltunheima.is.