Hreyfing er alltaf mikilvæg – líka á tímum COVID-19

skrifaði

Í Fréttablaðinu birtist viðtal við Ásdísi Halldórsdóttur íþróttafræðing og forstöðumann Heilsu & vellíðunar og Þórdísi Gunnarsdóttur, teymisstjóra heimaþjónustu.

Margir halda sig heima til að forðast margmenni út af kórónuveirunni en allir verða samt að huga að heilsunni og andlegri vellíðan, ekki síst eldri borgarar.

Hvað mælið þið með að eldri borgarar geri heima á meðan þetta ástand varir? Ásdís Halldórsdóttir íþróttafræðingur og forstöðumaður Heilsu & vellíðunar hjá heimaþjónustufyrirtækinu Sóltúni Heima svarar. „Það skiptir öllu máli að halda virkninni og líkamlegri heilsu, ekki síst á þessum tímum þegar við höldum okkur meira heima af ótta við smit. Ef við hægjum of mikið á okkur, þá aukast líkurnar á því að við þurfum aðstoð eða meiri aðstoð við athafnir daglegs lífs. Það sem gerist er að vöðvarnir rýrna með árunum og ef þeir eru í minni virkni eins og getur gerst nú á tímum COVID-19 þá verðum við slappari og orkuminni. Við viljum ekki koma verr út úr þessu tímabili en við fórum inn í það.  Því hraustari sem við erum, þeim mun betur getum við barist gegn sýkingum almennt séð.  Hreyfing er lykilatriði og sérstaklega styrktarþjálfun. “

Ganga er góð en ekki nóg

„Ganga er góð en ekki nóg,“ segir Ásdís. „Við mælum með göngutúrum sem eru hressandi fyrir alla, ekki síst andann á þessum tímum, náttúran og súrefnið nærir okkur, auk þess er mjög gott að gefa sér tíma í slökun, stunda djúpöndun og hugleiðslu í nokkrar mínútur á dag til að draga úr stressi og ótta og auka vellíðan. Við höfum verið að bjóða upp á æfingar heim til fólks, leiðbeint við styrktarþjálfun með einstöku styrktarþjálfunarkerfi sem kemur frá Danmörku og er notað víða þar.  Það sem er einstakt við þetta styrktarþjálfunarkerfi, sem heitir DigiRehab, er að hver og einn fær sérsniðið æfingaprógramm. Í fyrstu heimsókn er færnipróf þar sem einstaklingurinn er látinn gera ákveðnar æfingar og svara spurningum um athafnir daglegs lífs. Út úr því prófi kemur úrval æfinga sem miða að því að styrkja veikleika þess aldraða. Svo mætum við tvisvar í viku og mælt er með því frá framleiðanda kerfisins að fá heimahreyfingu í að minnsta kosti þrjá mánuði en margir hætta hreinlega ekki því þeir finna mikinn mun á styrkleika og bættu jafnvægi og eru hjá okkur í marga mánuði og sumir hafa verið hjá okkur upp undir þrjú ár.”

Hreyfingaleysi er líka hættulegt

Hvers konar hreyfingu teljið þið vera mikilvægust fyrir eldri borgara? „Við erum með heilsuhópa fyrir „unga fólkið okkar“, Kraftajötna, Kjarnakonur og Vatnaliljur sem eru annars vegar styrktarþjálfun í tækjasal ÍFR og hins vegar vatnsleikfimi í innilauginni í hjúkrunarheimilinu Mörkinni. Þessir hópar eru komnir í hlé vegna lokana á íþróttamannvirkjum en við tökum upp þráðinn þegar ástandið batnar,“ segir Ásdís.  „Okkur finnst samt ekki síður mikilvægt að þeir sem komast ekki út af heimilinu vegna veikinda eða hrumleika, að þeir sitji ekki eftir og „koðni niður“.  Vöðvarýrnun ásamt veikindum og beinbrotum geta leitt til aukinnar þarfar á heimaþjónustu og heimahjúkrun og það ætti fólk að forðast með því að taka ábyrgð á eigin heilsu. Þá hentar heimahreyfingin með DigiRehab æfingakerfinu virkilega vel.  Næstu vikur þarf að gera tímabundið hlé á heimahreyfingunni út af takmörkunum almannavarna en svo tökum við upp þráðinn og hvetjum aldraða sérstaklega þá að byrja af krafti, það er aldrei of seint að byrja.“

 Ásdís segir að það þekkja það margir að vera miklu duglegri að hreyfa sig ef einhver er með manni og leiðbeinir við æfingarnar, heimahreyfingin tryggir að fólk sé að gera æfingarnar rétt. Í heimahreyfingunni hjá Sóltúni Heima sér sérhæfður heimaþjónustustarfsmaður um að leiðbeina og er með æfingakerfið myndrænt á spjaldtölvu sem hann hefur meðferðis.

Heimahreyfing til valdra Kópavogsbúa

Ásdís segir frá því að Sóltún Heima var að hefja samstarf við Kópavogsbæ en þar var að hefjast verkefni sem felst í því að sveitarfélagið býður völdum hópi aldraðra heimahreyfingu með DigiRehab æfingakerfinu í þrjá mánuði. „Yfir 20 dönsk sveitarfélög hafa tekið þetta kerfi upp og markmiðið getur verið að seinka frekari þörf á heimaþjónustu sem getur leitt til sparnaðar eða sem lið í lýðheilsustefnu sveitarfélags. Við erum mjög stolt af samstarfinu við Kópavogsbæ en bæði starfsfólk heimaþjónustunnar og skjólstæðingar eru spenntir fyrir þessari viðbót við þjónustuna.“

„Svo setjum við núna reglulega heimaæfingar á fésbókarsíðuna okkar, Sóltún Heima, sem allir geta nýtt sér og við höfum fengið mjög góðar viðtökur við.  Æfingarnar henta öllum en sérstaklega eldri borgurum og á fullt erindi einmitt núna þegar fólk heldur sig mikið til innan dyra,“ segir Ásdís en hún er íþróttafræðingur og hefur margra ára reynslu í þjálfun eldri borgara. 

Við getum létt undir á heimilinu

Þórdís Gunnarsdóttir er teymisstjóri heimaþjónustu hjá Sóltúni Heima.  Hvað stendur eldri borgurum til boða, sem ef til vilja halda sig heima en vantar aðstoð inn á heimilið? „Við getum komið inn með félagslegt innlit, aðstoðað við lyfjagjafir, heimahjúkrun, farið í verslun fyrir fólk eða aðstoðað þau við að versla inn á netinu, einnig getum við hjálpað þeim að komast í samband við ættingja í snjalltækjum. Næstu vikur er okkur heimilt að veita heimaþjónustu sem flokkast undir athafnir daglegs lífs og ekki er hægt að lifa án.  En þegar takmörkunum verður aflétt, þá getum við fylgt fólki út að ganga og einnig leiðbeint við  styrktarþjálfunina, sem er afar mikilvægt,” svarar Þórdís. „Það er vinsælt að tvinna saman heimahreyfingu, aðstoð við böðun og kaffispjall,“ bætir hún við.

Nú hafa margir áhyggjur af COVID-19 smiti, hvernig getið þið komið í veg fyrir smit inn á heimilið? „Við leggjum mikla áherslu á sóttvarnir þegar við komum inn á heimili fólks og fylgjum öllum reglum. Þvoum hendur, sprittum og notum hanska eða grímur ef ástæða þykir til og höldum fjarlægð eins mikið og hægt er,“ segir Þórdís. „Það verður aldrei alveg hægt að koma 100% í veg fyrir smit á COVID-19 en við gerum allt sem við getum til að draga úr áhættunni. Með því að aldraðir haldi sig heima, þá draga þeir úr líkum að smitast en við megum ekki gleyma að sinna okkar líkamlegu og andlegu þörfum og athöfnum daglegs lífs. Sumir geta heldur ekki búið einir án aðstoðar, eiga kannski engan að og þar getum við komið inn,“ heldur Þórdís áfram.

Reynslusaga frá notanda DigiRehab heimahreyfingar:

Guðrún Ósk Sigurðardóttir, 83 ára, segir að heimahreyfingin hafa styrkt sig og er hún öruggari til gangs, að fara ofan í baðkar og það sé mun auðveldara að standa upp úr stól. Hún hefur miklu meiri ánægju af lífinu eftir að hún byrjaði í heimahreyfingunni hjá Sóltúni Heima. 

Hafið samband í síma 563 1400 eða sendið tölvupóst á soltunheima@soltunheima.is til að bóka þjónustu.

Þessi umfjöllun var kostuð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s