Sérsniðin þjónusta fyrir aldrað fólk

Sóltún Heima býður upp á heimaþjónustu fyrir eldri borgara sem gerir þeim kleift að búa lengur heima.  Einnig bjóðum við upp á heimahreyfingu sem styrkir fólk og gerir það meira sjálfbjarga.  Í Fréttablaðinu 22. september birtist viðtal við Ingu Láru Karlsdóttur hjúkrunarstjóra.

„Okkar megin áhersla er að styrkja og efla fólk sem kýs að búa heima hjá sér, því það er ekki aðeins stefna stjórnvalda að fólk eigi að búa lengur heima heldur er það vilji mjög margra að vera sem lengst heima hjá sér,“ segir Inga Lára Karlsdóttir, hjúkrunarstjóri Sóltúns Heima.

„Við hjá Sóltúni Heima bjóðum upp á heimaþjónustu fyrir eldri borgara og erum með því að mæta ákveðinni eftirspurn. Öldruðum fjölgar hlutfallslega hraðar en öðrum aldurshópum og opinberir aðilar hafa ekki náð að anna þeirri eftirspurn sem hefur myndast eftir þjónustu.“

Inga Lára segir ýmist að eldri borgarar leiti til þeirra sjálfir en einnig hafi aðstandendur samband. „Víða hafa myndast biðlistar eftir þjónustu hjá sveitarfélögunum og fólk kemst ekki að eða sú þjónusta sem er í boði hjá hinu opinbera dugar ekki til. Þá leitar fólk til okkar.

Sérsniðnar lausnir

Þarfir fólks eru mismunandi. Sumir þurfa aðstoð við hvunndagslegar athafnir, aðrir þurfa að fá þrif og enn aðrir hjúkrunaraðstoð. „Við veitum fólki sem leitar til okkar ráðgjöf og finnum út hvaða leiðir eru færar til að létta því lífið. Það fer eftir vilja og þörfum hvers og eins hversu oft við komum og á hvaða tímum. Þá reynum við ávallt að vera sveigjanleg. Stundum bætum við í þjónustuna og þéttum heimsóknir til dæmis á meðan aðstandendur fara í burtu í frí,“ segir Inga Lára. Þjónusta Sóltúns Heima er afar fjölbreytt og þar starfar breiður hópur starfsmanna, ófaglært fólk, félagsliðar, hjúkrunarfræðingar og íþróttafræðingar.

Sóltún Heimahreyfing

Inga Lára segir ekki aðeins nauðsynlegt að sinna þörfum fólks heldur sé afar mikilvægt að styrkja það og efla líkamlega. „Við skoðuðum hvernig þessum hlutum er háttað í nágrannalöndunum og kynntumst  þá á æfingakerfinu DigiRehab sem var þróað af dönskum sjúkraþjálfum og er mikið notað í heimaþjónustu í Danmörku.“ Inga Lára segir árangurinn af DigiRehab hafa verið mjög góðan. Reynslan í Danmörku sýnir að draga megi úr heimaþjónustu um allt að klukkustund á viku eftir tólf vikna heimahreyfingu. Auk þess stuðlar heimahreyfingin að bættum lífsgæðum og þörfin á frekari þjónustu seinkar.

„Við köllum íslensku útgáfuna Sóltún Heimahreyfing og okkar hugmynd er að grípa inní og styrkja fólk til að það geti verið sjálfbjarga lengur. Heimahreyfingin fléttast vel inn í heimaþjónustuna sem við bjóðum uppá. Sami starfsmaðurinn getur hjálpað fólki með matinn, aðstoðað fólk út í búð og hjálpað viðkomandi við að gera æfingarnar.“

Sóltún Heimahreyfing er sérsniðin að hverjum og einum. „Æfingakerfið reiknar út hvaða æfingar henta best. Æfingarnar eru gerðar til að styrkja skjólstæðingana til þess að þeir geti notið lífsins betur og sinnt daglegum athöfnum með minni aðstoð annarra,“ segir Inga Lára og telur árangurinn mjög góðan.  Steinunn Leifsdóttir, íþróttafræðingur og forstöðumaður Heilsu & Vellíðunar hjá Sóltúni Heima stýrir heimahreyfingunni.

Hafðu samband

Hringdu í síma 5631400 eða sendu tölvupóst á soltunheima@soltunheima.is ef þú vilt vita meira eða panta þjónustu.

Leave a Reply

%d bloggers like this: