Hávarður Emilsson húsasmíðameistari segir aldrei of seint að byrja að hreyfa sig. Hann er 73 ára og byrjaði í styrktarþjálfun hjá Sóltúni Heima í fyrrahaust og sér ekki eftir því. Í Fréttablaðinu 24. ágúst birtist skemmtilegt viðtal við hann.
“Hávarður segir að heilsan hafi sjaldan verið betri en nú. „Maður á mínum aldri er ekki mikið fyrir að fara í leikfimi og í raun hef ég aldrei stundað neina líkamsrækt. Konunni minni fannst hins vegar kominn tími til að ég gerði eitthvað í mínum málum og kæmi mér í betra form. Þegar ég sá auglýsingu frá Sóltúni Heima ákvað ég að skrá mig á námskeið og ætlaði að reyna að halda það út fram að jólum. Og hér er ég enn,“ segir Hávarður glaður í bragði en hann sækir námskeiðið Kraftajötnar sem haldið er í íþróttahúsi fatlaðra, ÍFR, í Hátúni 15 í Reykjavík. Boðið er upp á samskonar námskeið fyrir konur sem kallast Kjarnakonur en Sóltún Heima býður upp á sérsniðna þjónustu fyrir 60 ára og eldri.
Tímarnir byrja á upphitun, síðan taka við styrktaræfingar og loks teygjur. Hávarður segir tímana svo skemmtilegir að þeir fljúgi áfram. „Ég var ótrúlega fljótur að finna mun á mér og komast í gott form. Ég var eiginlega hissa hvað það tók stuttan tíma. Jafnvægið er betra og ég er ekki eins stirður. Mér finnst betra að beygja mig. Núna sest ég niður í stól en hlamma mér ekki niður eins og áður. Það skemmir ekki fyrir hvað félagsskapurinn er góður. Ég hef kynnst fjölda stráka á mínum aldri, af öllum stigum þjóðfélagsins, sem eru með mér í tímum. Eftir leikfimina setjumst við niður, fáum okkur kaffi og þá er um margt skrafað. Það er mikil stemning í þessum góða hópi,“ segir hann.
Tólf kíló fokin á einu ári
Hávarður tók mataræðið einnig föstum tökum og nú eru 12 kíló fokin á einu ári. „Þótt þetta séu ekki mörg kíló á ég miklu auðveldara með að hreyfa mig og fara um. Konan mín segist eiga alveg nýjan mann,“ segir Hávarður brosandi en hann hefur líka svo gott sem lagt bílnum og tekið fram hjólið í staðinn. „Núna er ég kominn í það gott form að ég get farið allar mínar ferðir á hjóli. Ég hjóla t.d. alltaf út í búð og kaupi í matinn. Bílinn er bara geymdur fyrir utan húsið okkar.“
Þegar Hávarður er spurður hvort hann hafi átt von á svona jákvæðum breytingum á heilsufarinu segir hann svo ekki vera. „Nei, ég átti ekki von á svona miklum breytingum. Ég er kominn á þann aldur að ég er búinn að fara í hnjáskipti og hef fengið blóðtappa oftar en einu sinni en ég finn ekkert fyrir þessu núna. Ég er sannfærður um að þjálfunin eykur lífsgæðin og mér finnst hreyfingin mjög skemmtileg. Svo má ekki gleyma að kennararnir eru afar góðir. Ég mæli heilsuhugar með Sóltúni Heima fyrir stráka á mínum aldri.”
Vertu velkomin
Það er fullt í Kraftajötnahópinn kl. 10 á þriðjudögum og fimmtudögum en örfá laus pláss kl. 9. Skráðu þig hér, sendu tölvupóst á soltunheima@soltunheima.is eða hringdu í síma 5631400 og tryggðu þér pláss!