“Eflum og styrkjum aldraða sem búa heima hjá sér með sveigjanlegri heimaþjónustu og notum nýjar forvarnarleiðir með velferðartækni að leiðarljósi.”
Í nýlegum Talnabrunni landlæknis kemur fram að stærra hlutfall eldra fólks býr á hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Fyrir marga er nauðsynlegt að komast inn á hjúkrunarheimili en biðin er of löng fyrir stóran hóp fólks og erfið fyrir þá sem standa viðkomandi nærri. Margsinnis hafa birst fréttir af yfirfullum Landspítala af fólki sem hefur fengið samþykki fyrir dvöl á hjúkrunarheimili og getur ekki farið heim til sín á meðan beðið er eftir plássi. Þau mál þarf að leysa og því ætti að skoða betur hvort einhverjir einstaklingar gætu dvalið heima ef heimahjúkrun og heimaþjónusta væri aukin og efld ásamt því að leita nýrra leiða til að draga úr vandanum.
Á Norðurlöndunum hefur verið áhersla á aukið valfrelsi og það er eitthvað sem þyrfti að standa eldri borgurum til boða hér á landi. Aldraðir ættu að hafa val um hvort auka eigi heimaþjónustu og heimahjúkrun eða að þiggja hjúkrunarrými, að minnsta kosti á meðan sú þjónusta er ekki kostnaðarsamari en hjúkrunarrýmið. Fyrir mörgum skiptir það miklu máli og hefur mikið með lífsgæði fólks að gera að geta búið sem lengst á eigin heimili og með sínum maka. Það er opinber stefna að fólk búi sem lengst heima en forsendan fyrir því að fólk sem er farið að tapa heilsunni geti það er að efla þjónustu í heimahúsum. Þjónustan þarf að vera í takt við ólíkar þarfir fólks og fjölskyldna þeirra því hópur aldraðra sem þarf heimaþjónustu er síður en svo einsleitur og aðstæður þeirra misjafnar. Þá væri það framfaraskref ef fólk hefði eitthvað val um það hver það er sem kemur heim og veitir þjónustu þar sem þetta er afar persónuleg þjónusta.
Það er staðreynd að fjölskyldumeðlimir sinna stórum hluta umönnunar og því er kominn tími til að viðurkenna það og veita umönnunaraðilum meiri stuðning og byggja þjónustuna upp í samráði við þá. Margir aðstandendur vilja sinna sínu fólki vel og myndu án efa fagna því ef samráð við fagfólk væri meira og þjónusta inn á heimilið sveigjanlegri. Ef fjölskyldumeðlimur ætlar í frí þá væri hentugast að þjónustuaðilarnir sem þekkja vel til taki að sér meiri umönnun og viðveru á meðan. Það þurfa allir frí og það er mjög mikilvægt að passa upp á að aldraðir einstaklingar sem sinna umönnun veikra maka sinna fái tíma til að sinna eigin heilsu og félagslífi. Að öðrum kosti brennur umönnunaraðilinn fljótt út og þjónustuþörf þeirra beggja eykst, fyrst inni á heimilinu en þörf fyrir hjúkrunarrými mun einnig verða nauðsynlegri fyrr.
Íslenska þjóðin er að eldast og á næstu árum mun fjölga hratt í þeim aldurshópi sem þarf aðstoð við athafnir í daglegu lífi. Það er því kominn tími til að skoða hvað aðrar þjóðir í kringum okkur hafa verið að gera og finna nýjar leiðir til að bregðast við þessari fjölgun í aldurshópnum með velferðartækni og nýrri nálgun sem felst í því að draga úr eftirspurninni eftir þjónustu. DigiRehab er velferðartækni frá Danmörku sem hefur reynst mjög vel í dönskum sveitarfélögum en það er styrktarþjálfunarkerfi sem er hannað af sjúkraþjálfurum en veitt af heimaþjónustustarfsfólki. Þetta eru einfaldar styrktar- og jafnvægisæfingar sem stuðla að bættri sjálfsbjargargetu og dregur úr byltuhættu og þörf á hjálpartækjum á einungis þremur mánuðum. Með því að innleiða slíkt í heimaþjónustu hér má bæði stuðla að betri lífsgæðum fyrir þá sem fá þjálfun og lægri kostnaði fyrir ríki og sveitarfélög sem standa straum af honum að miklu leyti. Það er vel hægt að efla eldra fólk og virkja betur þann auð sem elstu þegnar landsins búa yfir. Við höfum trú á því að mörgum þyki eftirsóknarvert að búa yfir því sjálfstæði sem búseta á eigin heimili getur veitt. Við mælum með því að við drögum úr forræðishyggju í málefnum aldraðra, veitum þeim aukið val og leggjum áherslu á að styrkja og efla fólk. Þannig drögum við úr þörf á hjúkrunarrýmum, heimaþjónustu og heimahjúkrun og stuðlum ennfremur að áhyggjulausu ævikvöldi á eigin heimili.


Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2018. Greinarhöfundar eru Inga Lára Karlsdóttir hjúkrunarfræðingur og hjúkrunarstjóri og Ásdís Halldórsdóttir íþróttafræðingur og forstöðumaður Heilsu & Vellíðan hjá Sóltúni Heima. Hafðu samband í síma 5631400 ef þú vilt vita heyra í þeim.