Eigum gæðastundir saman

Þegar ástvinur veikist og þarf á aðstoð að halda getur samskiptamynstrið breyst og það getur reynt á samband fólks og fjölskyldur. Að missa færni með aldrinum og þurfa að laga sig að nýju lífsmynstri er ekki auðvelt. Það getur verið erfitt að vera upp á aðra kominn með athafnir sem fólk hefur sinnt sjálft í áratugi. Svo má ekki gleyma þeim sem veitir umönnun, hún eða hann notar sífellt meiri orku og tíma við það og hefur minni tíma og þrek fyrir sjálfan sig. Heimilishald sem áður var ef til vill að hluta til sinnt af þeim sem nú þarf umönnun lendir á umönnunaraðilanum. Það er ekki óalgengt að maki gegni þessu hlutverki, maki sem er oftar en ekki kominn á háan aldur og kannski einnig farinn að missa þrótt eða býr við hnignandi heilsu.

Það er því ekki aðeins sá veiki sem þarfnast hjálpar heldur einnig umönnunaraðilinn sem þarfnast stuðnings í nýju hlutverki og leiðsögn við umönnunina. Að annast veika ástvini getur verið gefandi en til þess að geta hjálpað öðrum þarf fólk fyrst að huga að sjálfu sér og hafa tíma til að sinna eigin heilsu.

Sveigjanleiki og persónuleg þjónusta

Heimaþjónusta er sú þjónusta sem mun vaxa mikið á næstu árum enda stefna hins opinbera að fólk búi sem lengst á eigin heimili og þjóðin er að eldast. Ef þjónustan á að vera góð er nauðsynlegt hún taki mið af ólíkum þörfum fólks og aðstæðum og því þarf að sníða hana að hverjum og einum. Þeir sem þiggja þjónustuna þurfa að vera með í ráðum þegar verið er að skipuleggja hvað og hvenær á að fara fram á heimilinu. Sveigjanleiki er annar mikilvægur þáttur því aðstæður fólks geta breyst frá einu tímabili til annars og jafnvel frá degi til dags. Ef eitthvað bjátar á, t.d. ef upp koma veikindi getur verið gott að fá heilbrigðisstarfsmann sem þekkir viðkomandi til að koma á heimilið, veita þá þjónustu sem hægt er að veita á heimilinu og meta hvort ástæða sé til þess að fara á heilsugæslu eða sjúkrahús og þá jafnvel aðstoðað fólk við það. Þriðji þátturinn sem ég vil nefna til þess að tryggja góða þjónustu eru góð samskipti milli þeirra sem veita þjónustu og þeirra sem þiggja hana. Boðleiðir verða að vera stuttar og greiðar og skilaboð skýr svo fólk sem reiðir sig á heimaþjónustu geti treyst á hana og fundist hún vera það öryggisnet sem henni er ætlað að vera.

Stuðningur við aðstandendur lykilatriði

Oft á tíðum sinna fjölskyldumeðlimir miklum hluta umönnunar og eru tengiliður við þá sem veita þjónustu á heimilinu. Samskiptin við fjölskylduna eru þýðingarmikil og aðstandendur búa oft yfir dýrmætum upplýsingum enda þekkja þeir best til. Eitt af hlutverkum góðrar hjúkrunarþjónustu er að styðja og leiðbeina aðstandendum við umönnun og hlusta á það sem þeir hafa að segja. Stuðningur við aðstandendur er eitt af stóru verkefnunum í heimaþjónustu og hér á landi má víða gera mikið betur en gert er í dag.

Lífið er stutt – njótið samverunnar

Family meetingÞað er mikilvægt að fólki innan fjölskyldunnar líði vel saman, geti notið samverunnar og þá getur það verið lykilatriði að þiggja aðstoð við umönnun og heimilishald og einbeita sér að því að eiga góðar stundir saman. Þetta á ekki aðeins við hjá hjónum eða sambýlisfólki heldur einnig börnum á ýmsum aldri sem sinna foreldrum sínum. Það er mikilvægt að hafa það í huga að oft er best að geta einbeitt sér að uppbyggjandi samskiptum og ánægjulegum stundum í stað þess að hjálpa foreldrum sínum við klæðnað og snyrtingu, tiltekt, þrif, skunda í búð og sinna öðrum útréttingum. Það er gott að eiga góða fjölskyldu og fá aðstoð hjá makanum eða börnunum sem þekkja viðkomandi best en það getur létt undir og dregið út streitu að fá líka utanaðkomandi þjónustu þó svo fjölskyldan standi þétt saman og sinni fjölskyldumeðlimum sem þurfa aðstoð.

Það er í lagi að fá aðstoð

Það eru margir aðstandendur þreyttir vegna mikillar umönnunar, fólk er bundið heima fyrir og kemst ekki í frí, það á erfitt með að sinna vinnunni sinni en það er streituvaldandi að eiga kannski sífellt von á að þurfa að þjóta úr vinnu vegna þess að aldraðir foreldrar þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda. Eldra fólk finnst að sama skapi oft erfitt að þurfa að trufla börnin sín og barnabörn sem hafa nóg að gera og finnst það vera byrði á þeirra herðum. Góð heimaþjónusta getur létt undir, hleypt fólki í frí í lengri eða skemmri tíma og verið mikilvægur hlekkur til að álag á aðstandendur verði ekki of mikið. Það er ekkert rangt við að fá aðstoð við þau fjölmörgu verkefni sem fjölskyldur sinna og setja það á oddinn eiga gæðastundir saman.

inga_lara_karlsdottir_MG_3813
Inga Lára Karlsdóttir, hjúkrunarstjóri Sóltúns Heima

Um greinarhöfund

Höfundur er Inga Lára Karlsdóttir, hjúkrunarstjóri hjá Sóltúni Heima.  Kannaðu hvort við getum létt undir svo þið getið átt gæðastundir saman í síma 5631400 eða sendu okkur skilaboð hér að neðan:

Leave a Reply

%d bloggers like this: